Cart

Upplýsingar um taubleiur

Hvað er hvað?

AIO (all-in-one eða allt-í-einni) bleia er einfaldasta gerðin af taubleium og einna líkust bréfbleium. Mjúkt efni næst húðinni, fast innlegg þar fyrir innan og ysta lagið er vatnshelt. Ekki er þörf á neinum aukahlutum en hægt er að bæta við auka innleggi í flestar gerðir. Sumar gerðir eru með svokallaðri tungu þar sem innleggið er fast í annan endann og legst annað hvort ofan á bleiuna eða fer innan í, þetta er gert til þess að bleian sé fyrr að þorna. Fest með riflási eða smellum. Helstu kostir: Allt í einni bleiu, einföld, fljótleg og þægileg (einstaklega leikskóla væn). Helsti ókostur: Getur verið lengi að þorna.

AI2 (all-in-2 eða allt-í-tvennu) bleiur eru í tveimur hlutum, skel/cover og innlegg/bleia. Þegar pissað hefur verið í bleiuna er innlegginu skipt út fyrir hreint en coverið notað áfram. Sumar gerðir eru þannig að innleggið smellist í coverið en aðrar gerðir eru þannig að innleggin smegjast undir flipa sem eru að framan og aftan. Fest með riflási eða smellum. Helstu kostir: Þegar nokkur innlegg eru notuð á móti hverju coveri er þetta kerfi ódýrt, fljótara að þorna en AIO, mismunandi efni í innleggjum. Helstu ókostir: Í tveimur hlutum og þarf því að setja innleggið í.

Vasableia er bleia í tveimur hlutum. Bleian sjálf er úr mjúku efni næst húðinni og vatnsheldu efni yst, á milli myndast vasi þar sem innlegg er sett inn í. Með sumum tegundum fylgir innlegg með bleiunni en með öðrum þarf að kaupa þau sér. Fest með riflási eða smellum. Helstu kostir: Fljót að þorna, einföld og þægileg í notkun, hægt að auka rakadrægnina með mismunandi innleggjum og/eða fjölda innleggja. Helsti ókostur: Það þarf að setja innlegg inn í vasann á bleiunni.

Fitted bleia er úr mjúku rakadrægu efni sem er sniðin að barninu, jafnvel með teygjum um lærin og í mittið. Sumar sniðnar bleiur eru með vasa fyrir auka innlegg til þess að auka rakadrægnina, en aðrar eru með föstu innleggi eða engu innleggi. Fest með riflási, smellum eða án festinga. Helstu kostir: Venjulega ódýrari en AIO og vasableiur, mjúkt efni sem tekur við mikilli vætu og hentar því oft sem næturbleia. Helstu ókostir: Þarf cover yfir og sumar gerðir eru án festinga.

Prefolds er forbrotin bleia þar sem búið er að sauma saman nokkur lög af efni í ferhyrning til þess að gera hana rakadræga. Oft er henni skipt í þrjá hluta þar sem miðjan er þykkari en hliðarnar og eru merktar t.d. 3-6-3 eða 4-8-4 sem gefur til kynna fjölda efnislaga í hliðum og miðju. Nokkrar aðferðir eru notaðar við ásetningu. Helstu kostir: Mun ódýrari en AIO, vasa og fitted bleiur, einfaldari en gasbleia, nýtist sem innlegg þegar bleian sjálf er orðin of lítil. Helstu ókostir: Þarf að brjóta og setja cover yfir, er án festinga.

Gasbleia er gamla góða taubleian, ferhyrnt bómullar efni sem þarf að brjóta á ákveðinn hátt til að passi á barnið. Helstu kostir: Ódýr, fljót að þorna, hægt að nota allt bleiutímabilið, nýtist áfram eftir að hún hefur þjónað bleiuhlutverkinu (t.d. í tuskur). Helstu ókostir: Þarf að brjóta á ákveðinn hátt, þarf cover yfir, er án festinga.

Cover/bleiubuxur eru notaðar utan yfir bleiur sem eru ekki með vatnsheldu ysta lagi, svo sem fitted bleiur, prefolds og gasbleiur. Úr vatnsheldu efni sem andar (PUL, ull eða flís).

One-size bleia er bleia sem hægt er að stilla í mismunandi stærðir svo hún passi frá fæðingu eða nokkurra vikna og þar til bleiutímabilinu líkur. Fest með riflási eða smellum. Til eru AIO og AI2 bleiur, vasableiur, fitted bleiur og cover sem eru one-size. Helsti kostur: Ódýrari kostur til lengri tíma litið en bleiur í stærðum (ein bleia á móti small, medium og large). Helstu ókostir: Gæti verið heldur stór og fyrirferðarmikil á minnstu börnin fyrstu dagana og/eða vikurnar, einnig gæti hún orðið of lítil í lok bleiutímabilsins (ef barn er mjög stórt).

Innlegg er sá hluti bleiunnar sem tekur við vætunni og heldur henni í sér. Innlegg eru úr mismunandi efnum, bambus, bómull, hamp, microfiber eða ull.

Doubler / booster er þunnt og/eða mjótt viðbótar innlegg sem notað er þegar þörf er á auka rakadrægni. Úr bambus, bómull, hamp, microfiber eða ull.

Bleiupappír er þunnur pappír sem hægt er að setja innan í bleiu til að “grípa” hægðirnar og einfalda þannig kúkableiurnar. Pappírinn getur verið úr mismunandi efnum eins og hrís, jurtatrefjum eða bambus.

Snappi/nappinippa er bleiufesting sem kemur í staðinn fyrir næluna sem notuð var í gamla daga. Er notuð til að festa fitted bleiur sem eru ekki með festingar, prefolds og gasbleiur.

Umhirða

Hvað þarf margar bleiur? Fyrir nýbura er gott að miða við u.þ.b. 10-12 bleiur fyrir hvern sólarhring. Smátt og smátt fækkar þeim niður í u.þ.b. 5-8 bleiur. Fjöldinn fer þannig eftir því hversu oft er þvegið.

Hvernig eru óhreinar bleiur geymdar? Best er að geyma bleiur með PUL-efni á þurrum stað (ekki í bleyti). T.d. í bala eða sérstökum taubleiupokum. Fitted bleiur, prefolds og gasbleiur er hægt að geyma eins eða í bleyti.

Hvernig eru bleiurnar þvegnar? Flestar bleiur má þvo á mest 60°C. Gott er að byrja á að setja bleiurnar á kalt skol í þvottavélinni án þvottaefnis áður en þær fara á langt þvottakerfi með þvottaefni. Hægðir eru skolaðar úr fyrir þvott (þó ekki nauðsynlegt þegar um mjólkurhægðir er að ræða). EKKI nota mýkingar.

Hversu oft eru þær þvegnar? Á hverjum degi, annan hvern dag eða jafnvel þriðja hvern dag (ekki er mælt með því að þvo sjaldnar en það).

Þarf að þvo bleiurnar fyrir notkun? Já, allar bleiur og innlegg þarf að þvo fyrir fyrstu notkun. Bleiur og innlegg úr náttúrulegum efnum þarf að for-þvo sér, jafnvel nokkrum sinnum, fyrir notkun til að ná upp rakadrægni.

Þurrkun. Til þess að bleiurnar endist sem lengst er betra að hengja þær upp í stað þess að setja þær í þurrkara. Vasableiur þorna fljótt á snúrunni. AIO eru lengur að þorna en spara má tíma með því að setja þær á volgan ofn. Innleggin má hengja upp eða setja í þurrkara. Ef þurrkari er notaður fyrir bleiurnar þarf að fara eftir ráðleggingum á bleiunum um hitastillingar þurrkarans.

Blettir. Besti blettaeyðirinn er sólarljós. Hengdu blettóttar bleiur út í sólina og hún sér um vinnuna. Virkar jafnvel þó það sé skýjað, tekur bara aðeins lengri tíma þá. Einnig er hægt að nota sérstakar blettasápur.